Gúdag gúdag!

Þá hefst hér opinberlega blogg fjölskyldunnar á heimilinu. Ég reikna svo sem fastlega með að það verði fullorðna fólkið sem sjái um þessa síðu að mestu, en þó gæti verið að ungarnir fái að tjá sig einstaka sinnum líka ;)

En annars þá fór ég með Örnu og Hjalta með mér í ræktina í dag, þeim finnst ægilega gaman að vera í gæslunni á meðan mamman púlar. Ég er að æfa í Laugum og þar sem það er ókeypis í Laugardalslaugina fyrir viðskiptavini World Class þá fórum við beint eftir æfinguna hjá mér. Ég kippti bara krökkunum inn í búningsklefa til mín og örkuðum svo af stað út í laug. Þegar maður fer í laugina í gegnum ræktina þá þarf maður að labba svolítinn spöl frá búningsklefanum að lauginni. Þetta er örugglega stórfínt á sumrin, en á veturna... úff! Við Arna vorum allavegana orðnar þokkalega freðnar á tánum og eiginlega hættar að finna fyrir þeim þegar við loks gátum stungið þeim ofan í hlýja laugina. Hjalti græddi á því að vera stubburinn og fékk far í fanginu á múttu.

En það var afskaplega gaman í sundi, allavegana skemmtu krakkarnir sér konunglega. Í heita pottinum frétti ég að það væri hægt að labba einhvern gang inni til að komast að búningsklefunum í Laugum og varð því afskaplega fegin. Sá fram á að við værum ekki í hættu á að missa tærnar vegna kals á leiðinni til baka. Þannig að þegar við fórum upp úr fórum við bara inn á hefðbundnum stað fyrir laugargesti og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. En ekki tókst betur til en svo að við fundum bara hvergi þessa goðsagnarkenndu leið og þurftum því á endanum að fara út aftur og frysta á okkur tærnar samt sem áður.

En við lifðum þetta nú af og allar tær eru enn áfastar. Hugsa að ég fjárfesti samt í einhverjum sund-sandölum áður en við leggjum í svona sundlaugarferð aftur ;)

Við fórum svo í strætó heim, sem krökkunum fannst líka rosa sport. Komum við í búðinni og versluðum laugardagsnammi. Restin af deginum fer líklega bara í afslöppun og notalegheit ;)

Lilja.

Gullmoli dagsins frá Hjalta:
Arna
(að leika sér í heita pottinum): Sjáðu, ég er fljótandi bátur.
Hjalti (gerir eins og Arna nema kemur með svaka hrotuhljóð þar að auki): Sjáðu, ég er HRJÓTANDI bátur.

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband