Biðst velvirðingar á hversu lítið við höfum bloggað hérna en smá uppfærsla núna.
Hjalti átti afmæli þann 22 maí, og var þrusu party haldið þann 26 sem var laugardagur, bökuð var skúffukaka sem var skreytt eins og fótboltavöllur, grænt krem og svo var keypt fótboltaspil og kallarnir rifnir af því og stungið ofan í kökuna, reyndar voru þeir bara 10 í hvoru liði en ég sagði nú bara að það væri af því að það væri búið að reka einn útaf í hvoru liði. Auðvitað voru þetta Manchester sem var í sókn á kökunni, Rooney við það að skora auðvitað, á móti Chelsea, skiljanlega var þessu stillt þannig upp að fleiri leikmenn voru á vallarhelmingi Chelsea en United hehe. Það komu um 13 aðrir krakkar, og það var þrusu fjör, Lilja sá nú um mestan undirbúningin í þessari veislu og voru pizzubitarnir hennar sérlega vinsælir.
Eitthvað var tekið af myndum og við setjum þær inn síðar, þangað til næst, blessuð.
Vinir og fjölskylda | 28.5.2007 | 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef ykkur langar að sjá skemmtilegt verk kíkið þá á The Power of Love í Silfurtunglinu. Frábær sýning sem spilar algjörlega í takt við tónlistina. Magnað hvað er hægt að koma miklu til skila án orða; bara með svipbrigðum og tóinlist :D
Hér er aðeins um sýninguna:
Brilljantín kynnir
POWER OF LOVE
(Hið fullkomna deit)
Einleikur eftir Halldóru Malin Pétursdóttur
Þetta var á köflum óborganlegt
útfært á frumlegan og skemmtilegan
hátt í takt við tónlistina." Þorgeir Tryggvason, Mbl. 17. janúar,
2007.
Power of Love er komið aftur til landsins eftir leikferð til Króatíu
og Slóveníu.
Sýningar hefjast að nýju í mars, dagana 23., 24., 29. og 30. mars, í
Silfurtunglinu í Austurbæ. Sýningar hefjast allar klukkan 20:00.
Ath. Aðeins þessar 4 sýningar.
Miðasala er í Austurbæ frá 13:00-17:00 og í síma 551-4700, einnig er hægt
að nálgast miða á midi.is. Miðaverð er kr. 1500.
Power of Love, hið fullkomna deit, fjallar um konu sem er að undirbúa
mikilvægasta kvöld lífs síns. Hún ætlar að finna ástina og lifa
hamingjusöm til æviloka.
Til að ekkert fari úrskeiðis skipuleggur hún sig í þaula. Allt verður
að smella þegar herrann mætir á svæðið. Hún verður að vera fullkomin.
Tónlist sömdu og útsettu Páll Ívan Pálsson og Kristín Þóra
Haraldsdóttir og er í lifandi flutningi höfunda.
Halldóra Malin Pétursdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands
vorið 2006 með BFA í leiklist. Síðan þá hefur hún m.a. sett upp
einleik á Borgafirði Eystra, stofnað Leikhús Frú Normu á Egilsstöðum,
eitt af þremur atvinnuleikhúsum á landsbyggðinni, auk þess að vinna
til tvennra verðlauna í dansleikhússamkeppni Borgarleikhússins vorið
2006, fyrir verkið Tommi og Jenni. Nýverið stofnaði Halldóra Malin
leikhópinn Brilljantín. Power of Love fyrsta verkefni hópsins.
Menning og listir | 23.3.2007 | 21:03 (breytt kl. 21:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Litlu krakkarnir eru hjá pabba sínum þessa vikuna, en þau skoppast nú yfir í heimsókn þegar þeim sýnist ;) Hjalti fór með mér smá rúnt áðan að skutla Elísu í boxið. Við renndum síðan við í Regatta þarna í Faxafeninu, en það var búið að benda mér á að þar væri útsala. Ég gerði ekkert smá góð kaup. Snjóbuxur og úlpur voru á 990 kr. stykkið, svo ég keypti snjóbuxur á alla krakkana, og síðan úlpu og vesti á Örnu, en kuldagallinn hennar er orðinn ansi götóttur á hnjánum ;) Vestið var bara svo flott að ég keypti það líka ;)
Hjalti ákvað svo upp á eigin spýtur að hafa fisk í matinn og að þau Arna ætluðu að borða hjá mér ;) Þannig að það var komið við í Hagkaup og keypt ýsa. Soðin ýsa, kartöflur, smjör og tómatsósa; uppáhaldsmatur Hjalta og Örnu... já og Elísu finnst hann voða góður líka.
Ætla að leggja mig smá á eftir og fara síðan í ræktina og þar á eftir beint í vinnu, en ég er á næturvakt.
Lilja
Vinir og fjölskylda | 20.3.2007 | 19:30 (breytt kl. 19:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimleikadagur hjá Hjalta í dag. Hann er alltaf í fimleikum á sunnudögum klukkan 11. Eitthvað þóttist hann nú ekki nenna að fara, en skemmti sér auðvitað konunglega á staðnum. Það er örugglega rosalega gaman að vera fjögurra ára og fá að hoppa og skoppa, sveifla sér og hamast í þessum fimleikatækjum.
Næst fórum við í IKEA og versluðum okkur langþráðan sjónvarpsskáp. Nú getur maður hækkað skammelinn á Lay-Z-Boy stólunum og horft á sjónvarpið án þess að tærnar séu fyrir ;) Keyptum líka hillur fyrir DVD diskana okkar.
Síðan var afmælisveisla hjá Ólöfu Svölu, dóttur Magga bróður. Hún átti afmæli í vikunni og er því orðin 11 ára skvísa. Hún og Elísa voru á Högnastöðum með mömmu og pabba um helgina, en þeim var náttúrulega skilað í tæka tíð fyrir afmælið. Þetta var nú bara eins og fermingarveisla, svo veglegar voru kræsingarnar. Svolítið skondið þegar fólk heldur veislu fyrir allra nánustu ættingja, þá eru þetta stundum bara alveg risaveislur, því nánustu ættingjarnir eru svo margir ;)
Ég druslaðist svo í ræktina til að reyna að bæta fyrir kökuátið... kannski hef ég brennt sem samsvarar einni kökusneið, það er nefninlega alveg ótrúlega mikið af hitaeiningum í svona kökum og brauðtertum. Well, nenni ekki að hafa samviskubit yfir því.
Jæja, litlu krakkarnir farnir að sofa og Elis búinn að setja upp sjónvarpsskápinn. Kannski maður leggist bara í sófann og finni sér eitthvað til að horfa á ;)
Lilja
Vinir og fjölskylda | 18.3.2007 | 20:57 (breytt kl. 21:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá hefst hér opinberlega blogg fjölskyldunnar á heimilinu. Ég reikna svo sem fastlega með að það verði fullorðna fólkið sem sjái um þessa síðu að mestu, en þó gæti verið að ungarnir fái að tjá sig einstaka sinnum líka ;)
En annars þá fór ég með Örnu og Hjalta með mér í ræktina í dag, þeim finnst ægilega gaman að vera í gæslunni á meðan mamman púlar. Ég er að æfa í Laugum og þar sem það er ókeypis í Laugardalslaugina fyrir viðskiptavini World Class þá fórum við beint eftir æfinguna hjá mér. Ég kippti bara krökkunum inn í búningsklefa til mín og örkuðum svo af stað út í laug. Þegar maður fer í laugina í gegnum ræktina þá þarf maður að labba svolítinn spöl frá búningsklefanum að lauginni. Þetta er örugglega stórfínt á sumrin, en á veturna... úff! Við Arna vorum allavegana orðnar þokkalega freðnar á tánum og eiginlega hættar að finna fyrir þeim þegar við loks gátum stungið þeim ofan í hlýja laugina. Hjalti græddi á því að vera stubburinn og fékk far í fanginu á múttu.
En það var afskaplega gaman í sundi, allavegana skemmtu krakkarnir sér konunglega. Í heita pottinum frétti ég að það væri hægt að labba einhvern gang inni til að komast að búningsklefunum í Laugum og varð því afskaplega fegin. Sá fram á að við værum ekki í hættu á að missa tærnar vegna kals á leiðinni til baka. Þannig að þegar við fórum upp úr fórum við bara inn á hefðbundnum stað fyrir laugargesti og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. En ekki tókst betur til en svo að við fundum bara hvergi þessa goðsagnarkenndu leið og þurftum því á endanum að fara út aftur og frysta á okkur tærnar samt sem áður.
En við lifðum þetta nú af og allar tær eru enn áfastar. Hugsa að ég fjárfesti samt í einhverjum sund-sandölum áður en við leggjum í svona sundlaugarferð aftur ;)
Við fórum svo í strætó heim, sem krökkunum fannst líka rosa sport. Komum við í búðinni og versluðum laugardagsnammi. Restin af deginum fer líklega bara í afslöppun og notalegheit ;)
Lilja.
Gullmoli dagsins frá Hjalta:
Arna (að leika sér í heita pottinum): Sjáðu, ég er fljótandi bátur.
Hjalti (gerir eins og Arna nema kemur með svaka hrotuhljóð þar að auki): Sjáðu, ég er HRJÓTANDI bátur.
Vinir og fjölskylda | 17.3.2007 | 19:15 (breytt kl. 19:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Hollar/léttar uppskriftir.
Fínar uppskriftir fyrir þá sem eru að hugsa um heilsuna.
- World Class uppskriftir Uppskriftir frá World Class
- Heil og sæl uppskriftir Uppskriftir frá Heilsuhúsinu
- Hollar uppskriftir Nokkrar hollar uppskriftir.
- Café Sigrún Hollustuuppskriftir sem innihalda ekki hvítt hveiti, ger eða hvítan sykur.
- Léttir Réttir Góðar uppskriftir fyrir fólk í átaki sem og aðra ;)
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar